„Þetta var tilraun til nauðgunar“

Tristane Banon
Tristane Banon Reuters

„Þetta var tilraun til nauðgunar og ég endurtek það.“ Þetta sagði Tristane Banon sem sakað hefur Dominique Strauss-Kahn um nauðgun árið 2003, en þau hittust í dag á fundi með saksóknara.

Að láta kærða og þann sem kærði mætast á þennan hátt er ekki óalgengt í franska réttarkerfinu, þegar vitnisburðum aðila um atburði ber ekki saman. Fer fundurinn fram án lögfræðinga en í kjölfar hans munu yfirvöld ákveða hvort fýsilegt sé að sækja málið gegn Strauss-Kahn.

„Ég stóð frammi fyrir nákvæmlega sama Strauss-Kahn sem ég sá í sjónvarpinu, með sama hrokann og sama kaldlyndið,“ sagði Banon, sem bar fram ásakanir sínar gegn Strauss-Kahn í júlí eftir að hann var sakaður um að nauðga konu í Bandaríkjunum. Hann var hins vegar ekki ákærður vegna þess máls þar sem framburður konunnar þótt ekki stöðugur.

„Ég hélt að hann myndi biðjast afsökunar á því sem hann hefur þó viðurkennt að hafa gert. Ég horfði stöðugt á hann, en hann horfði aldrei á mig,“ sagði Banon. Strauss-Kahn hefur viðurkennt að hafa reynt að kyssa hana, en neitar því að um tilraun til nauðgunar hafi verið að ræða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert