Hæstiréttur metur heilbrigðiskerfið

Hæstiréttur Bandaríkjanna í Washington.
Hæstiréttur Bandaríkjanna í Washington.

Hæstiréttur Bandaríkjanna mun að líkindum hafa mikil áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum sem fara fram á næsta ári. Í liðinni viku óskaði ríkisstjórn Barack Omaba eftir því að rétturinn skoðaði nýlegar breytingar á heilbrigðiskerfinu með það fyrir augum hvort þær standist stjórnarskrá Bandaríkjanna.

Barack Obama hefur beitt sér fyrir umfangsmiklum breytingum á heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna sem miðar að því að koma til móts við efnaminni einstaklinga og þá sem staðið hafa utan heilbrigðiskerfisins sem er að mestu leyti einkarekið en nú eru um 30 milljónir manna án heilbrigðistryggingar.

Áhrifamikil ákvörðun

Ef Hæstiréttur tekur hið breytta heilbrigðiskerfi til skoðunar kann það mál að verða eitt áhrifamesta mál sem komið hefur fyrir Hæstarétt Bandaríkjanna síðan rétturinn úrskurðaði um forsetakosningarnar árið 2000 og tryggði þar með George W. Bush sigur. 

Nýtt starfsár hefst há Hæstarétti Bandaríkjanna á mánudaginn. Líklegt þykir að niðurstaða fáist í heilbrigðismálið fyrir júní á næsta ári þegar formleg kosningabarátta til forsetaembættisins hefst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert