Thor Möger Pedersen, 26 ára, verður á morgun yngsti ráðherra í sögu Danmerkur þegar hann tekur við embætti skattamálaráðherra í nýrri ríkisstjórn Helle Thorning-Schmidt, sem jafnframt verður fyrsta konan sem gegnir embætti forsætisráðherra Dana.
Pedersen þykir mikið efni í dönskum stjórnmálum en hann er varaformaður Sósíalíska þjóðarflokksins og einn helsti hugmyndafræðingur flokksins. Er hann sagður hafa beitt sér fyrir því að flokkurinn tók upp nána samvinnu við Jafnaðarmannaflokk Thorning-Schmidt.
Möger Pedersen bauð sig í fyrsta skipti fram í þingkosningum nú í september en náði ekki kjöri. Hann er í sambúð með Nanna Westerby, sem var þingmaður Sósíalíska þjóðarflokksins þar til í september. Þau eiga sama dótturina Bjørk.
Til þessa hefur enginn Dani orðið ráðherra yngri en Lotte Bundsgaard var þegar hún varð húsnæðismálaráðherra, 27 ára gömul árið 2000 í ríkisstjórn Pouls Nyrups Rasmussens. Margrethe Vestager, núverandi leiðtogi De Radikale Venstre og væntanlegur efnahags- og innanríkisráðherra, var 29 ára gömul þegar hún varð mennta- og kirkjumálaráðherra árið 1998 í ríkisstjórn Nyrups Rasmussens.