Gríska ríkisstjórnin ræddi á fundi sínum í dag tillögu um að segja upp 30 þúsund opinberum starfsmönnum. Verði tillögunni hrundið í framkvæmd fá starfsmennirnir eitt ár til að finna sér aðra vinnu og á þeim tíma verða þeir á 60% launum.
Gríska ríkisstjórninni mun ekki takast að ná markmiðum um 7,6% halla á fjárlögum þessa árs. Horfur eru á að hallinn verði 8,5%.
Segja má að Grikkland sé komið í þá stöðu að landið hafi glatað efnahagslegu sjálfstæði sínu. Evrópusambandið, Seðlabanki Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ræða nú hvernig eigi að halda á málum. Þessir þrír aðilar setja Grikklandi ströng skilyrði fyrir frekari stuðningi. Skilyrðin snúast m.a. um mikinn niðurskurð í ríkisrekstri og harðari innheimtu skatta.