Japanar ætla að halda áfram hvalveiðum í Suðurhöfum í samræmi við áætlanir sínar um vísindaveiðar en jafnframt verður öryggisgæsla hert til að tryggja öryggi hvalveiðimanna.
Michihiko Kano, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra Japans, sagði í morgun að fylgdarskip yrðu send á hvalamiðin með hvalveiðiskipunum til að reyna að hindra árásir umhverfisverndarsinna.
Japanski hvalveiðiflotinn neyddist í febrúar til að halda heim mánuði fyrr en áætlað var og eftir að hafa aðeins veitt um fimmtung veiðikvótans. Var ástæðan sögð sú, að vegna árása félaga í umhverfisverndarsamtökunum Sea Shepherd væru sjómennirnir ekki öruggir.
Sea Shepherd-liðar köstuðu málningu og fýlusprengjum að hvalveiðiskipunum, lögðu út net sem flæktust í skrúfum skipanna og sigldu á milli skutlanna og hvala.
Japönsk stjórnvöld hafa síðan fjallað um hvort halda eigi vísindaveiðum áfram. En Kano sagði á blaðamannafundi í morgun, að Japanar stefndu að því að hefja hvalveiðar í atvinnuskyni að nýju og til þess að það yrði mögulegt yrði að stunda vísindaveiðar á hvölum.