Bandarískir embættismenn vilja gjarnan hafa hendur í hári þess, sem skaut 3,5 metra langan grindhval, sem rak dauðan upp á strönd í New Jersey.
Blaðið Star-Ledger í Newark hefur eftir Scott Doyle, starfsmanni bandarísku sjávar- og loftslagsstofnunarinnar, NOAA, að á 25 ára starfsferli hafi hann aldrei fyrr heyrt af slíku máli.
Bob Schoelkopf, embættismaður í Newark, segir við blaðið, að sennilega hafi skotsárið valdið ígerð þannig að hvalurinn gat ekki étið. Líklegt sé að hann hafi synt um langan veg áður en hann drapst og rak á land.
Kúlan sat föst í kjálka dýrsins. Hun hefur nú verið send til rannsóknar.