NATO-ríkin ræða framhald aðgerða

Loftárásum bandamanna í Líbíu hefur snarfækkað.
Loftárásum bandamanna í Líbíu hefur snarfækkað. Reuter

Varnamálaráðherrar NATO-ríkjanna funda í Brussel í dag um það hvernig og hvænær verður tímabært að hætta hernaðaraðgerðum bandalagsins í Líbíu en núverandi pattstaða í Sirte og Bani Walid, þar sem enn er barist, hefur gert loftárásir þess að slæmum kosti.

Sirte og Bani Walid eru einu borgirnar þar sem hersveitir hliðhollar Múammar Gaddafi há enn bardaga við hermenn þjóðarráðs uppreisnarmanna en bandamenn hafa átt erfitt með að aðstoða uppreisnarmenn úr lofti, þar sem slíkt myndi vafalaust verða jafn mörgum almennum borgurum að aldurtila eins og stuðningsmönnum Gaddafi.

„Árásir úr lofti eru ekki rétta úrræðið við þessar aðstæður,“ er haft eftir embættismanni NATO-ríkis, hann vill ekki láta nafns síns getið. „Leyniskytta á húsþaki, það er ekki skotmark sem hægt er að ráðast á.“

Fjöldi loftárása bandamanna hefur farið snarminnkandi en í gær var aðeins gerð ein loftárás samanborið við 15-20 daglegar árásir þegar mest var.

„Við munum halda áfram aðgerðum okkar eins lengi og þörf er á, en erum ákveðin í því að ljúka þeim eins fljótt og auðið er,“ sagði Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert