Steven P. Jobs, stjórnarformaður og einn af stofnendum Apple, lést í dag, miðvikudag. Í tilkynningu frá Apple segir að snilld, ástríða og orka Jobs hafi verið uppspretta óteljandi uppfinninga sem auðgi og bæti líf okkar.
Steve Jobs starfaði í tæknigeiranum í þrjá áratugi og var einn áhrifamesti einstaklingurinn í þeim geira. Eftir að hafa yfirgefið Apple og verið utan fyrirtækisins í rúman áratug kom hann til baka með eftirminnilegum hætti þegar fyrirtækið átti í erfiðleikum og leiddi margar þekktar nýjungar, svo sem iPhone og iPad, sem gert hafa Apple að einu öflugasta tæknifyrirtæki heims.
Hann var 56 ára gamall þegar hann lést eftir að hafa átt við veikindi að stríða um nokkurra missera skeið.
Steve Jobs stofnaði Apple árið 1976 ásamt tölvuverkfræðingnum Steve Wozniak. Fyrsta tölva fyrirtækisins var Apple I sem Wozniak hannaði og smíðaði. Einungis tvö hundruð Apple I tölvur voru framleiddar en fljótlega kom Apple II árið 1977. Ári seinna hóf Steve Jobs að vinna við hönnun og smíði á Apple Lisa en vegna samstarfsörðugleika hætti Jobs hjá Apple-hluta fyrirtækisins og hóf vinnu við Macintosh-deild fyrirtækisins en á þessum tíma var mikil samkeppni milli deilda fyrirtækisins um það hvort myndi ljúka hönnun og smíði á undan. Apple-hluti fyrirtækisins varð ofan á og lauk við Lisu 1983 eða ári á undan fyrstu Macintosh-vélinni. Lisa naut hins vegar ekki mikillar velgengni þar sem hún þótt dýr og bauð upp á fá forrit. Macintosh kom út ári síðar naut gífurlegra vinsælda en sölu vélarinnar var ýtt úr vör með auglýsingunni „1984“ sem sló rækilega í gegn. Macintosh var fyrsta vélin til að vera seld með mús og grafísku stýrikerfi og má segja að hún sé upphafið að því umhverfi sem við þekkjum í tölvum í dag. Í kjölfar velgengni Macintosh kom upp valdabarátta innan fyrirtækisins milli Steve Jobs og Johns Sculley, þáverandi framkvæmdstjóra fyrirtækisins, sem leiddi til þess að Jobs yfirgaf Apple.
Eftir að hafa yfirgefið Apple stofnaði Steve Jobs nýtt tölvufyrirtæki undir nafninu NeXT Computer sem þýða mætti yfir á íslensku sem Næsta Tölva. NeXT-vinnustöðvarnar þóttu þó of dýrar og voru af þeirri ástæðu hunsaðar af markaðnum. Hins vegar varð til dyggur aðdáendahópur þeirra sem efni höfðu á tölvunni og notuðu hana að staðaldri. Árið 1993, eftir að hafa selt einungis 50.000 tölvur, færði NeXT sig alfarið yfir í hugbúnað og er hugbúnaðarþróun NeXT grunnurinn að stýrikerfi Apple í dag. Auk þess að stofna NeXT keypti Jobs fyrirtækið The Graphics Group sem seinna fékk nafnið Pixar og hóf þá m.a. gerð tölvugerðra teiknimynda fyrir Disney. Meðal mynda sem komið hafa frá Pixar eru A Bug's Life (1998), Toy Story 2 (1999), Monsters, Inc. (2001), Finding Nemo (2003), The Incredibles (2004), Cars (2006), Ratatouille (2007), WALL-E (2008), Up (2009) and Toy Story 3 (2010). Finding Nemo, The Incredibles, Ratatouille, WALL-E, Up og Toy Story 3 hlutu allar Óskarsverðlaun fyrir bestu tölvugerðu teiknimyndina. Í byrjun árs 2006 keypti Disney Pixar af Steve Jobs og varð hann þá stærsti einstaki hluthafinn í Disney með 7 prósenta hlut.
Apple keypti NeXT árið 1996 og fékk þannig Steve Jobs inn í fyrirtækið aftur sem hann hafði sjálfur stofnað tuttugu árum fyrr. Frá þeim tíma er óumdeilt að Apple hefur verið leiðandi í þróun og tækninýjungum. Fyrirtækið hefur einnig undir stjórn Steve Jobs lagt áherslu á útlit og notendaviðmót og myndu margir segja að önnur fyrirtæki kæmust ekki með tærnar þar sem Appel er með hælana. Mitt ár 1998 kynnti Apple okkur fyrir iMac sem þóttu byltingarkenndar í útliti. Jafnvel músin með tölvunni var ekki eins og fólk átti að venjast. Þó iMacinn hafi verið vinsæll og farið vel í notendur þá verður vart sama sagt um músina sem fylgdi með. Hún er eflaust það versta sem komið hefur frá Apple. XServe G4, MacBook, Mac mini, iPod, iPhone, iPad, Apple Tv og fleiri vörur hafa á örfáum árum breytt nálgun okkar og upplifun á afþreyingu og vinnu. Endurkoma Steve Jobs til Apple hefur því verið bæði fyrirtækinu og tölvuheiminum mikið happ. Nú er Jobs látinn og því velta margir framtíð fyrirtækisins fyrir sér.