Flækingshundur, sem gengur undir nafninu Pylsa, er orðinn einskonar þjóðhetja í Grikklandi en hann hefur tekið virkan þátt í mótmælaaðgerðum í miðborg Aþenu gegn niðurskurðaráformum stjórnvalda.
Myndir hafa birst af hundinum þar sem hann víkur sér undan grjóthnullungum og táragassprengjum og geltir reiðilega að lögreglunni.
Svo virðist sem alltaf þegar dregur til tíðinda í miðborginni mæti Pylsa á svæðið og taki sér stöðu með mótmælendum.
Flækingshundar í Aþenu eru ekki líkir flækingshundum í öðrum stórborgum. Sumir eru með hálsband og merki og í stað þess að smala þeim saman og aflífa þá gefa borgaryfirvöld um 2000 slíkum seppum reglulega að éta. Þeir eru vanaðir, bólusettir og örmerktir og þeim er síðan sleppt aftur út á göturnar.
Um tíma var umræða um að borgaryfirvöld hefðu ekki efni á því að dekstra svona við flækingshundana og raunar varð hlé á þessu um tíma en nú er byrjað að gefa hundunum aftur og embættismenn segja, að Pylsa sé „frelsistákn."