Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, sagði á fréttamannafundi sem hófst í dag, fimmtudag, klukkan 12:00 að íslenskum tíma í dag og lauk klukkan 12:40, að þótt Afganir taki við stjórninni árið 2014 þá þýði það ekki að NATO muni fara úr landinu þá.
Allir varnarmálaráðherrar bandalagsríkjanna hittust á fundi í gær í Brussel undir stjórn Rasmussen. Þar var farið yfir mál NATO í Afganistan, Líbíu, Kosovo og víðar.
Árið 2014 munu Afganir sjálfir taka við stjórn öryggismála í Afganistan. En það var undirstrikað að það þýddi ekki að NATO myndi þarmeð fara að fullu úr landinu. Rasmussen sagði að skuldbindingar NATO væru miklar í Afganistan og þeir myndu áfram aðstoða, gefa ráð og þjálfa her og lögreglu.
Rasmussen ræddi líka það sem hann kallar frábæran árangur NATO í Líbíu. Hann var spurður af einum blaðamanninum hvort það væri ekki áhyggjuefni að heyra fréttir af því að vegna skorts á lyfjum og læknum væru særðir borgarar sem hafa lent á milli andstæðra fylkinga í Líbíu að láta lífið og hann svaraði því til að vissulega væri það alltaf áhyggjuefni. En hann minnti á að NATO væri ekki með hersveitir í landi Líbíu. Aðgerðir NATO eru aðeins í lofti og á hafinu.
Hann benti á að meðan sveitir Gaddafi hafi ekki sýnt neina mannúð og jafnvel notað saklausa borgara sem skildi í stríði sínu að þá hafi uppreisnarmenn þó sýnt mannúð fram að þessu. En þetta væri vissulega áhyggjuefni.
Rasmussen tók við framkvæmdastjórastöðunni árið 2009 og hefur lagt mikla áherslu á að nútímavæða bandalagið. Hann hefur í stjórnartíð sinni fækkað nefndum bandalagsins úr rúmlega 400 í um 200, fækkað stofnunum úr 13 í 3 og vill fækka höfuðstöðvum þess sem eru víða á Vesturlöndum. Hann leggur áherslu á að lönd bandalagsins deili búnaði og upplýsingum enda segir hann það of dýrt fyrir hvert land fyrir sig að vera með fullkominn herbúnað á öllum sviðum en hvert land geti einbeitt sér að ákveðnum sviðum.