„Hvern ætlar þú að kjósa? Pútín eða Pútín?“ Þetta er einn af fjölmörgum bröndurum sem ganga um Rússland þessa dagana eftir að Vladimír Pútín, forsætisráðherra, tilkynnti hann byði sig fram til forseta á næsta ári. Ef hann situr tvö kjörtímabil eins og margir óttast verður Pútín þaulsetnasti leiðtogi landsins frá því Jósef Stalín var og hét.
Forsetakosningarnar fara fram í mars á næsta ári og sækist Pútín eftir að þriðja kjörtímabili sínu sem forseti. Hann gegnir nú embætti forsætisráðherra landsins. Mörgum Rússum finnst sem hann hafi rænt þá réttinum að kjósa sér nýjan forseta með lýðræðislegum hætti. Gæti hann setið í embætti tvö kjörtímabil í röð en þau eru sex ár að lengd. Gæti hann því verið forseti til ársins 2024.
Til að vinna úr áfallinu hafa Rússar því gripið til pólitískrar ádeilu og sagt brandara um Pútín sem aldrei fyrr.
„Pútín segist ætla að sækjast eftir þriðja kjörtímabilinu vegna þess að hann á ennþá nokkra vini úr grunn- og háskóla sem eru ennþá án vinnu,“ er einn brandaranna sem lýsir vel hve Rússar eru þreyttir á spillingu sem gegnsýrt hefur stjórnkerfi landsins um áraraðir.