Barack Obama, Bandaríkjaforseti, þarf að standa við þau loforð sem urðu til þess að hann fékk friðarverðlaun Nóbels árið 2009. Þetta sagði forveri hans á stóli forseta, Jimmy Carter, í dag, samkvæmt Reuters-fréttaveitunni.
Hann sagðist vona að Obama myndi standa við loforð sín um að efla mannréttindi í heiminum, frið í Miðausturlöndum og í tengslum við fleiri mál.
„Þau [verðlaunin] voru aðallega veitt vegna ákveðinna skuldbindinga sem hann tók á sig munnlega, ræðna hans og svo framvegis þar sem hann talaði um að taka við leiðtogahlutverki og takast á við hnattræna hlýnun og innflytjendavandamál, stuðla að mannréttindum og efla frið í Miðausturlöndum,“ sagði Carter.