Veðbanka grunar, að upplýsingar um það hver ætti að fá Nóbelsverðlaunin í bókmenntum hafi lekið út í gærmorgun.
Fjallað er um þetta á vef sænska blaðsins Dagens Nyheter. Þar segir, að í gærmorgun, skömmu áður en tilkynnt var um verðlaunin, hafi bandaríski tónlistarmaðurinn Bob Dylan þótt líklegasti verðlaunahafinn í veðmálum hjá Ladbrokes veðbankanum í Svíþjóð. Sýrlenska skáldið Adonis kom næst og japanski rithöfundurinn Haruki Murakimi þóttu einnig líkleg.
En síðan gerðist eitthvað og um klukkan 9 í gærmorgun að sænskum tíma, tveimur stundum áður en tilkynnt var um verðlaunin, byrjuðu að streyma inn veðmál þar sem veðjað var á sænska skáldið Tomas Tranströmer.
„Við höfum aldrei séð neitt þessu líkt áður," hefur blaðið eftir Sofiu Hjärtberg, talsmanni Ladbrokes. Á einum klukkutíma lækkuðu „oddarnir" hjá Tranströmer úr 13 í 1,66.
„Okkur grunaði að eitthvað væri ekki eins og það ætti að vera. En þeir sem veðjuðu á Tranströmer fyrir klukkan 9 hafa grætt peninga með heiðarlegum hætti," segir Hjärtberg.
Ladbrokes í Svíþjóð hefur gefið viðskiptavinum sínum kost á að veðja um nóbelsverðlaunin í bókmenntum frá árinu 2003. Í eitt skipti hefur fyrirtækið neyðst til að stöðva veðmálin. Það gerðist árið 2008 þegar Frakkinn Jean-Marie Gustave Le Clezio fékk verðlaunin. Daginn áður en verðlaunin voru afhent byrjuðu skyndilega fjölmargir að veðja á að Frakkinn yrði fyrir valinu.