Líkir mótmælendum við glæpamenn

Mótmælt á Wall Street í dag
Mótmælt á Wall Street í dag Reuters

Einn valdamesti repúblikaninn í Washington, Eric Cantor, leiðtogi flokksins í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, lýsti mótmælendunum á Wall Street sem glæpamönnum í dag.Segist hann hafa miklar áhyggjur af framgöngu þeirra og hvernig þeir væru að hertaka Wall Street og aðrar borgir landsins.

Þúsundir hafa tekið þátt í mótmælum í fjármálahverfi New York borgar undanfarnar vikur og hafa stéttarfélög bæst í þann hóp. Mótmælin hafa nú breiðst út til annarra borga í Bandaríkjunum, meðal annars til höfuðborgarinnar, Washington. 

Um síðustu helgi voru hundruð manna handtekin eftir að hafa efnt til mótmæla í New York undir kjörorðinu „Hernemum Wall Street“.

The New York Times segir að þessir atburðir hafi gert marga af leiðtogum hefðbundinna stéttarfélaga hugsi. Þeir sjái að óþekktum grasrótarsamtökum gangi mun betur en þeim að vekja athygli og þau nái mun betur til unga fólksins.

Nokkrir leiðtoganna kvarta yfir því að viðleitni þeirra undanfarin tvö ár til að mótmæla bónusgreiðslum og öðrum umdeildum aðgerðum fjármálafyrirtækjanna hafi vakið litla athygli þótt þátttakendur hafi verið mun fleiri en núna.

Í gær sagði Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, að hann teldi að mótmælin lýstu vonbrigðum bandarísku þjóðarinnar. Fólk væri ósátt við að bankar og fjármálafyrirtæki sem ollu kreppunni væru nú að berjast gegn því að reglur væru hertar um slíka starfsemi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert