Þrjár konur fá friðarverðlaun Nóbels

Ellen Johnson-Sirleaf.
Ellen Johnson-Sirleaf. Reuters

Þrjár konur deila friðarverðlaunum Nóbels í ár, Ellen Johnson Sirleaf, forseti Líberíu, Leymah Gbowee frá Líberíu og Tawakul Karman frá Jemen.

Thorbjørn Jagland, formaður verðlaunanefndar norska Stórþingsins, tilkynnti um verðlaunin í norska þinghúsinu klukkan 9. Sagði hann að konurnar þrjár fengju verðlaunin fyrir friðsamlega baráttu þeirra fyrir bættu öryggi kvenna og fyrir rétti kvenna til að taka fullan þátt í uppbyggingarstarfi til að tryggja frið.

„Við getum ekki náð fram lýðræði og varanlegum friði í heiminum nema konur fái sömu tækifæri og karlar til að hafa áhrif á þróun mála á öllum sviðum samfélagsins,“ sagði Jagland.

Ellen Johnson Sirleaf, sem er 72 ára, er fyrsta konan, sem kosin hefur verið forseti í Afríkuríki. Hún tók við embættinu árið 2006. Nóbelsnefndin segir í yfirlýsingu, að frá þeim tíma hafi Sirleaf lagt mikið af mörkum til að tryggja frið í Líberíu með því að beita sér fyrir efnahagslegum og félagslegum umbótum og styrkja stöðu kvenna.

Leymah Gbowee, sem er 39 ára og sex barna móðir, skipulagði samtök kvenna í Líberíu þvert á ættflokka og trúarbrögð og stuðlaði þannig að því að binda enda á langvinnt borgarastríð í landinu og tryggja þátttöku kvenna í kosningum þar. Nóbelsnefndin segir, að hún hafi síðan unnið að því að auka áhrif kvenna í Vestur-Afríku eftir stríðið.

Þá hafi Tawakkul Karman, sem er 32 ára blaðamaður og þriggja barna móðir, verið í fararbroddi í baráttunni fyrir réttindum kvenna og fyrir lýðræði og friði í Jemen. 

„Ég er afar glöð yfir að hljóta þessi verðlaun," sagði Karman við AP fréttastofuna. „Ég gef verðlaunin ungmennunum sem taka þátt í byltingunni í Jemen og jemensku þjóðinni."  

Norska nóbelsverðlaunanefndin segist vonast til, að ákvörðunin um að veita konunum þremur friðarverðlaun Nóbels muni stuðla að því að kúgun kvenna, sem viðgengst í mörgum löndum, verði upprætt og jafnframt að virkja þann mikla kraft, sem konur búi yfir, í baráttu fyrir friði og lýðræði.

Leymah Gbowee.
Leymah Gbowee.
Tawakkul Karman.
Tawakkul Karman.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert