Fimmtíu þúsund Sýrlendingar taka nú þátt í fjöldamótmælum gegn stjórn Bashar al-Assad, forseta landsins. Í dag fer fram útför Meshaal Tamo, leiðtoga stjórnmálaflokks Kúrda, sem myrtur var af öryggissveitum landsins í gær. Tamo var einnig meðlimur í nýstofnuðu þjóðarráði Sýrlands.
Fjórir grímuklæddir menn brutust inn í hús Tamos í gær, myrtu hann og særðu auk þess konu, sem var félagi hans í stjórnmálfokki Kúrda og son Tamos.
Ríkisfréttastofan SANA skýrði frá atburðinum, en fréttaflutningur var á annan hátt. Þar sagði að Tamo hefði verið myrtur af byssumönnum í svörtum bíl sem hefðu skotið að bíl Tamos.
Tamo var nýverið látinn laus eftir að hafa verið í fangelsi í þrjú og hálft ár. Morðið á honum hefur vakið hörð viðbrögð, bæði í Sýrlandi og víða um heim. Bandarísk stjórnvöld sendu frá sér yfirlýsingu þar sem þau fordæma árásir stjórnar Assads á andstæðinga sína og Frakkar segjast vera slegnir yfir fréttunum af morðinu og sögðu að um gróft ofbeldi væri að ræða.
Riad Seif, leiðtogi uppreisnarmanna, er nú á sjúkrahúsi eftir að hafa sætt barsmíðum fyrir utan mosku í borginni Medan.