Háttsettur yfirmaður stjórnvalda í Líbíu hefur neitað því að föngum úr röðum stuðningsmanna Gaddafis hafi verið misþyrmt. Þúsundir meintra stuðningsmanna Gaddafis sitja nú í fangelsum víða um landið.
Skv. fréttavef Sky hafa fjölmargir fangar sagst hafa verið beittir ofbeldi í fangelsunum, að þeir hafi verið barðir og pyntaðir af hermönnum bráðabirgðastjórnarinnar. Haft er eftir einum þeirra á vef Sky, Hannibal, að honum hafi verið gefið raflost við yfirheyrslur og mun hann hafa sýnt fréttamanni brunasár á höndum og fótum því til staðfestingar.
Bráðabirgðastjórnin í Líbíu hefur verið beitt nokkrum þrýstingi af mannréttindasamtökum hvað varðar meðferð fanga, þess krafist að þeir fái mannúðlega meðferð.