Fékk 230 milljónir fyrir símtal

James „Whitey
James „Whitey" Bulger Reuters

Bundinn var endi á eina lengstu og dýrustu leit að glæpamanni þegar Anna Björnsdóttir hringdi í bandarísku alríkislögregluna (FBI) og sagði henni hvar James „Whitey" Bulger byggi. Hún hafði búið í sama hverfi og hann í Santa Monica í suðurhluta Kaliforníu og fyrir þetta símtal fékk hún tvær milljónir dala í laun, sem jafngildir um 230 milljónum króna.

Frá þessu segir í ítarlegri umfjöllun á vef dagblaðsins Boston Globe. Bulger, sem hafði verið á flótta í 16 ár, ber ábyrgð á a.m.k. 19 morðum og gerðist einnig sekur um fjárkúganir og eiturlyfjasölu.

Í íbúð hans og kærustunnar, Catherine Greig, í Santa Monica fengu fáir að koma enda kom það í ljós eftir handtökuna að hann hafði gert fjölmörg göt í veggina og geymdi þar vopn og mikið reiðufé. Hann lét lítið fyrir sér fara, sérstaklega eftir að Osama bin Laden var felldur því bin Laden var sá eini á lista FBI yfir eftirsóttustu menn Bandaríkjanna sem var alræmdari en Bulger. Nágrönnunum var sagt að hann væri með Alzheimers sem farið væri að ágerast - allt til að koma í veg fyrir óþarfa spurningar frá þeim.

Smellið hér til að lesa grein Boston Globe í heild sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert