Leiðtogar Frakklands og Þýskalands, tveggja stærstu hagkerfa Evrópu, Nicolas Sarkozy og Angela Merkel, eiga fund í Berlín í dag. Helsta umræðuefnið á fundinum verður skuldakreppan á evrusvæðinu og hvernig staðið verður að endurfjármögnun bankakerfisins.
Einhverjir evrópskir bankar ramba á barmi gjaldþrots vegna skuldakreppunnar, einkum og sér í lagi vegna grískra skuldabréfa. Forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, hefur varað við afleiðingum skuldakreppunnar á evrusvæðinu og hvaða áhrif hún geti haft á hagkerfi heimsins. Hvetur hann leiðtoga evruríkjanna að grípa fljótt til aðgerða svo heimskreppu verði afstýrt.
Síðar í dag mun stjórn Dexia-bankans koma saman til fundar í Brussel en bankinn rambar á barmi gjaldþrots. Matsfyrirtækin hafa lækkað lánshæfiseinkunn Ítalíu og Spánar og Moody's hefur varað við því að fyrirtækið kunni að lækka lánshæfiseinkunn belgíska ríkisins vegna bágrar stöðu Dexia.