Mótmælt víða um Bandaríkin

Reuters

Mótmælt var í nokkrum helstu borgum Bandaríkjanna í dag en rúmar þrjár vikur eru liðnar frá fyrstu mótmælunum á Wall Street í New York. Helsta markmið mótmælanna er að snúa við þeirri þróun að Bandaríkin snúist um fjármálaheiminn í stað þess að íbúar landsins skipti mestu máli og þeirra líðan.

Mótmælin í dag fóru friðsamlega fram en fólk kom meðal annars saman í höfuðborginni Washington, New York og Los Angeles.

AFP fréttastofan hefur eftir Lönu Ferree, raungreinakennara frá Pennsylvaníu, að staðan sé orðin þannig að fjöldi bandarískra foreldra hefur ekki efni á því að veita börnum sínum menntun. „Ég vil ekki búa í þriðja heims ríki," segir Ferree og bætir við að þjóðin þurfi ekki á stórfyrirtækjum að halda heldur atvinnu. En ríkisstjórnin hugsi ekki um annað en Exxon og Wall Street.

Slagorð mótmælanna er „Hernemum Wall Street" (Occupy Wall Street) og hefur það verið heimfært á aðrar borgir svo sem Occupy DC og Occupy LA.

Anthony Allen, 38 ára sölumaður og tveggja barna faðir sem býr í Washington hefur verið á McPherson torgi síðan á fimmtudag. Hann segir í samtali við AFP fréttastofuna að sú staðreynd að ekkert sé eins og það eigi að vera í bandarísku efnahagslífi hafi fengið hann til þess að taka þátt í mótmælunum. „Ég hef átt von á að þetta myndi gerast í tvö ár þar sem hið opinbera er ekki að virka," segir hann.

Frá Occupy LA mótmælum
Frá Occupy LA mótmælum Reuters
Frá mótmælum í Washington
Frá mótmælum í Washington Reuters
Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert