Slóvakar fella björgunarsjóðinn

Iveta Radicova, forsætisráðherra Slóvakíu, fyrir miðju á myndinni, kemur til …
Iveta Radicova, forsætisráðherra Slóvakíu, fyrir miðju á myndinni, kemur til atkvæðagreiðslunnar í þinginu í dag. Reuters

Þingið í Slóvakíu felldi í kvöld frumvarp forsætisráðherra þess efnis að styrkja björgunarsjóð evruríkjanna. Samstaða hefur ekki tekist um málið í stjórnarflokkunum í ríkisstjórn Ivetu Radicovu.

Slóvakía var síðasta ríki meðal 17 evruríkja til að fjalla um björgunarsjóðinn. Áður höfðu hin ríkin 16 staðfest þátttöku sína í sjóðnum, en setja á í hann 440 milljarða evra.

Haft er eftir fréttamanni BBC í Bratislava að önnur atkvæðagreiðsla muni fara fram um málið á næstu dögum, þar sem vonast er til að frumvarpið nái fram að ganga með stuðningi stjórnarandstöðunnar. Sá stuðningur yrði þó skilyrtur því að boðað verði til nýrra þingkosninga.

Þrátt fyrir niðurstöðuna í Slóvakíu hélt evran velli í skráningu á gjaldeyrismörkuðum gagnvart helstu myntum eins og dollar og jeni. Hreyfðist gengið lítið til frá því að mörkuðum var lokað í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert