Tímósjenkó í sjö ára fangelsi

Júlía Tímósjenkó, fyrrverandi forsætisráðherra Úkraínu, hefur verið dæmd í sjö ára fangelsi fyrir misbeitingu valds á meðan hún gegndi embætti árið 2009.

„Niðurstaða dómsins er sú að J. Tímósjenkó hafi meðvitað notað vald sitt með glæpsamlegum hætti," hefur AFP eftir dómaranum, Rodion Kireyev, þegar hann kvað upp dóminn í réttarsal í Kænugarði nú fyrir stundu. 

Forsætisráðherrann fyrrverandi, sem leiddi hina s.k. Appelsínugulu byltingu í Úkraínu, er sökuð um að hafa misnotað vald sitt þegar hún gerði samkomulag við Rússa um gasflutninga árið 2009. Gas til Vestur-Evrópu er flutt í gegnum Úkraínu um rússneska gasleiðslur og hafa samskipti ríkjanna tveggja lengi verið stirð vegna deilna um flutningsgjöld og ógreidda reikninga. Árið 2009 fyrirskipaði Tímósjenkó hinsvegar gasfyrirtækinu Naftohaz að skrifa undir samning við Rússa um innflutning á gasi, sem dómarinn segir að hafi valdið fyrirtækinu skaða sem nemur 186 milljónum Bandaríkjadala.

Tímósjenkó heldur því sjálf staðfastlega fram að hún sé fórnarlamb pólitískra hefndaraðgerða forseta Úkraínu, Viktors Janúkóvitsj. Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa fordæmt málaferlin gegn henni og Evrópusambandið hefur gefið til kynna að fangelsisdómur yfir Tímósjenkó kunni að skaða vonir Úkraínumanna um inngöngu í ESB. 

Réttarhöldin hafa staðið í allan morgun og samkvæmt BBC sat Tímósjenkó undir málflutningi dómara að því er virtist áhugalaus á svip og starði á iPad spjaldtölvuna sína. Á einum tímapunkti stóð hún þó upp og greip fram í fyrir dómaranum með orðunum „Dýrð sé Úkraínu“ og fullyrðingum um að hún ætlaði áfram að berjast fyrir því að gera Úkraínu að Evrópulandi.

Ljósmynd sem tekin var á farsíma í réttarsalnum í Kænugarði …
Ljósmynd sem tekin var á farsíma í réttarsalnum í Kænugarði sýnir Júlíu Tímósjenkó í réttarsal í morgun. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert