Tímósjenkó misbeitti valdi

Júlía Tímósjenkó.
Júlía Tímósjenkó. AP

Dómari í Úkraínu hefur komist að þeirri niðurstöðu að Júlía Tímósjenkó, fyrrum forsætisráðherra landsins, hafi farið út fyrir valdsvið sitt þegar hún skrifaði undir samkomulag við Rússa um gasflutninga árið 2009.

„Tímósjenkó...notaði opinbert vald sitt með glæpsamlegum hætti og beitti sér meðvitað í aðgerðum sem fóru augljóslega fram úr valdsviði hennar, sem hafði alvarlegar afleiðingar," sagði dómarinn Rodion Kireyev. Óljóst er hinsvegar hvort úrskurðurinn þýði að Tímósjenkó sé dæmd sek og þá hversu þungan dóm hún hlyti. Saksóknari hefur krafist sjö ára fangelsisvistar.

Tímósjenkó heldur því sjálf staðfastlega fram að hún sé fórnarlamb pólitískra hefndaraðgerða forseta Úkraínu, Viktor Janúkóvitsj. Óeirðalögreglumenn standa nú vörð um dómstólinn í Kænugarði til að halda aftur af stuðningsmönnum Tímósjenkó. Minniháttar pústrar hafa komið upp en engin stórátök, samkvæmt AFP.

Tímósjenkó, sem leiddi „Appelsínugulu byltinguna“ í Úkraínu árið 2004, hefur setið í varðhaldi síðan 5. ágúst. Hún skartaði einkennismerki sínu, fléttunni, í hárinu í morgun og kallaði „Dýrð sé Úkraínu“ þegar hún var leidd í réttarsalinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert