Milljarðafjárfestirinn George Soros og um 100 fyrrverandi ráðamenn í Evrópu birtu í dag opið bréf þar sem þeir vara við því að skuldakreppa evrusvæðisins gæti leitt til hruns fjármálakerfis heimsins.
„Evran er langt frá því að vera fullkomin. Kreppan hefur sýnt okkur það,“ skrifa þeir í þýska viðskiptablaðið Handalsblatt í dag. „En til að bregðast við verðum við að endurbæta veiklikana frá grunni frekar enað leyfa kreppunni að grafa undan og eyðileggja jafnvel fjármálakerfi heimsins.“
Hópurinn kallar sig „áhyggjufulla Evrópubúa“ og kallar í bréfinu á ríkisstjórnir Evrópu að koma á fót stofnun sem geti tryggt seljanleika á öllu evrusvæðinu, endurnýjaðri hagvaxtastefnu Evrópusambandsins og styrkari yfirstjórn fjármálamarkaða.
Meðal þeirra sem undirrita bréfið eru ýmsir fyrrum háttsettir stjórnmálamenn, s.s. Hans Eichel fyrrverandi fjármálaráðherra Þýskalands, Bernard Kouchner fyrrverandi utanríkisráðherra Frakklands og Pedro Solbes sem fór áður með framkvæmd efnahags- og peningamála Evrópusambandsins. Hagfræðingar eins og hinn breski Charles Goodhart og Þjóðverjinn Peter Bofinger skrifa einnig undir bréfið.
Frakkar og Þjóðverjar hafa heitið því að koma með umfangsmikla lausn á skuldavanda evrusvæðisins fyrir lok mánaðarins, en hafa ekki gefið uppi í hverju hún mun felast.