Fráskildir fái ekki að kenna börnum

Erkibiskupinn umdeildi Andre-Joseph Leonard.
Erkibiskupinn umdeildi Andre-Joseph Leonard. Reuters

Fráskildu fólki ætti ekki að vera heimilt að kenna börnum í kaþólskum skólum. Þetta er álit erkibiskupsins umdeilda, Andre-Joseph Leonard, í Belgíu.

Leonard er ekki þekktur fyrir að liggja á skoðunum sínum og í októberhefti kaþólska tímaritsins Pastoralia lýsir hann þeirri skoðun sinni að fráskildir eigi ekki heima innan kaþólska skólakerfisins. „Hvað varðar þá sem giftast að nýju eftir skilnað þá er æskilegt að þeir annist ekki trúarlega kennslu né fari með yfirstjórn í skólum,“ sagði hann jafnframt.

Formaður félags kaþólskra skólameistara í Belgíu, Jean-Pierre Merveille, segir að ummæli Leonard séu hneykslanleg. „Löggjöfin tryggir okkur skýran aðskilnað milli einkalífs og vinnu,“ hefur AFP eftir honum.  Fleiri hafa tekið undir, meðal annars foreldrafélög sem gagnrýna erkibiskupinn fyrir að hvetja til mismununar.

Erkibiskupinn er þekktur íhaldsmaður og náinn samstarfsmaður Benedikts XVI páfa. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem umdeildar skoðanir hans vekja hörð viðbrögð. Í fyrra var hann sakaður um hommahatur og gerð krafa um afsögn hans eftir að hann lét þau orð falla að þeir sem fengju alnæmi ættu það skilið. Hann sagði líka að öldruðum prestum sem misnota börn ætti að hlífa.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka