Harrisburg er gjaldþrota

Sorpbrennslustöðin var of stór biti fyrir borgarsjóð Harrisburg.
Sorpbrennslustöðin var of stór biti fyrir borgarsjóð Harrisburg. Reuters

Harrisburg, höfuðborg Pennsylvaníuríkis í Bandaríkjunum, hefur lýst sig gjaldþrota. Yfirlýsing þess efnis, sem var lögð fram í dag, á sér fá fordæmi en óttast er að fleiri sveitarfélög þar í landi fylgi í kjölfarið.

Fjárhagur borgarinnar hefur verið bágur eftir að lagt var í gríðarmikinn kostnað við að laga úrelta sorpbrennslustöð. Sagt er að borgin skuldi um 310 milljónir dollara (tæpa 36 milljarða kr.).

Að sögn sérfræðinga er þetta í fjórða skiptið á þremur áratugum sem bandarískt sveitarfélag af umtalsverðri stærð lýsir sig gjaldþrota. Algengara er að lítil og fámenn sveitarfélög grípi til þess úrræðis.

Hagfræðingar hafa varað við hættunni á erfiðri greiðslustöðu sveitarfélaga á þessu ári því tekjur af sköttum og öðru hafa dregist saman í kjölfar efnahagssamdráttarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka