Sex af hverjum tíu lögregluþjónum í Noregi vilja ekki þurfa að bera vopn öllum stundum. Þetta var niðurstaða könnunar sem Félag lögreglumanna í Noregi gerði meðal meðlima sinna. Þeir biðjast undan því að settar verði reglur um almennan vopnaburð innan lögreglunnar.
Aftenposten hefur eftir Liv Jensen, prófessor í félags- og sakamálafræðum við Óslóarháskóla, að aldrei fyrr hafi svo skýr og stór meirihluti lögreglumanna í einu landi tjáð andstöðu sína við vopnaburð. Um 13.500 meðlimir eru í Félagi lögreglumanna í Noregi. Formaður félagsins, Arne Johannessen, segir að spurningin um vopnaburð vegi þungt í starfinu.
Hann hafði áður haldið því fram að meirihluti norskra lögreglumanna vildi bera vopn við dagleg störf og að það væri skiljanlegt.