Úkraína í flokk einræðisríkja

Stuðningsmenn Júlíu Tímósjenkó utan við réttarsalinn í gær.
Stuðningsmenn Júlíu Tímósjenkó utan við réttarsalinn í gær. Reuters

Fangelsisdómurinn yfir Júlíu Tímósjenkó, fyrrverandi forsætisráðherra Úkraínu, er harðlega gagnrýndur í úkraínskum fjölmiðlum í dag. Segja þeir m.a. að forsetinn Viktor Janúkóvits  skipi sér nú í flokk með einræðisherranum Alexander Lúkasjenkó í Hvíta-Rússlandi.

Stærsti vefmiðill landsins, Ukrainska Pravda, segir að tilraunir Janúkóvits til að draga úr áhrifum dómsins séu augljós tilraun til afvegaleiðingar og að helstu leiðtogaríki heims geri sér fyllilega grein fyrir því.  „Þetta verður til þess að flýta fyrir því ferli sem forseti Úkraínu hefur þegar hafið, að stilla sér upp sem næsti Lúkasjenkó Evrópu.“ Ukrainska Pravda leiðir líkum að því að fyrirhugaðri heimsókn Janúkóvits til Brussel 20. október verði nú frestað, en ráðamenn Evrópusambandsins hafa varað við því að dómurinn geti skaðað umsókn landsins að ESB.

Rússneska dagblaðið Vedomosti í Moskvu segir í dag að Janúkóvits sé nú kominn á lista með alræmdum leiðtogum sem setji andstæðinga sína bak við lás og slá. „Þetta er sama aðferð og leiðtogar Suður-Ameríku og Afríku beittu óspart í gamla daga og nú síðast Alexander Lúkasjenkó,“ segir blaðið og vísar í það þegar forseti Hvíta-Rússlands lét fangelsa tugi andstæðinga sinna eftir kosningarnar í desember.    

Rússar hafa tekið undir gagnrýni Vesturlanda á réttarhöldunum og lýsti forsætisráðherrann Vladimir Pútín m.a. undrun sinni á lengd fangelsisdómsins. Blaðamaðurinn Vitaly Portnikov bendir því á í dagblaðinu Levy Bereg í dag að Janúkóvits hafi náð þeim óvenjulega árangri að vera fordæmdur samtímis af Bandaríkunum, Evrópusambandinu og Rússlandi. Landið hafi því málað sig út í horn í Evrópu.

Úkraínska dagblaðið Komosomolskaya Pravda birtir í dag forsíðumynd af lögreglumanni að leiða Tímósjenkó úr réttarsal undir fyrirsögninni „Hverjar verða afleiðingarnar fyrir Úkraínu? –Vináttu við Rússland og ferðafrelsi landsmanna stefnt í hættu“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert