Feginn að hafa ekki evru

Trond Giske, efnahags- og viðskiptaráðherra Noregs.
Trond Giske, efnahags- og viðskiptaráðherra Noregs. Magnus Fröderberg/norden.org

Trond Giske, efnahags- og viðskiptaráðherra Noregs, kveðst gleðjast yfir því að Noregur hafi ekki gengið inn í evrusamstarfið. Hann segir að gallar séu í grunninum sem evran byggir á. Giske kveðst hafa verið þeirrar skoðunar í 20 ár.

Fréttavefur Dagens Næringsliv greinir frá ræðu ráðherrans í dag á haustþingi Norska verslunarháskólans. Giske sagðist telja að þrátt fyrir allt muni evrusamstarfið lifa áfram, einfaldlega vegna þess að ekki sé völ á neinu öðru. Hann sagði að engin leið sé út úr evrunni og vísaði til þeirra fjölmörgu vandamála sem land stæðii frammi fyrir kysi það að yfirgefa evruna.

Giske sagði að eina leiðin sé að komast út úr kreppunni. Hann telur að þótt evrusamstarfið muni lifa af núverandi skuldakreppu þá séu forsendur evrunnar þannig að fyrr eða síðar komi upp vandamál.

Giske benti m.a. á að myntsamstarfið byggi á samvinnu um peningastefnu en það skorti á samstarf um ríkisfjármál. „Það eru sett ákveðin skilyrði. Meðal annars að ríkisskuldir skuli ekki vera meira en 60% af vergri þjóðarframleiðslu. En fyrstu löndin sem brutu það voru Frakkland og Þýskaland,“ sagði Giske.

„Það að vera með sameiginlegt myndsvæði án þess að stýra um leið fjárlagagerðinni eru mistök númer eitt.“ Giske benti einnig á að seðlabanki evrusvæðisins geti ekki prentað peninga, en eigi samt að stýra peningastefnunni. Hann kvaðst telja að evruskuldabréf séu nauðsynleg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka