Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, greindi frá því í dag að hann myndi senda 100 hermenn til Mið-Afríku til að veita ráðgjöf og aðstoða hersveitir sem berjast við liðsmenn uppreisnarhers drottins í Úganda.
Uppreisnarmenn eru sakaðir um morð, nauðganir og mannrán í fjórum löndum. Um mörg þúsund manns er að ræða. Tugþúsundir hafa fallið sl. 20 ár í stríði uppreisnarmanna við öryggissveitir í norðurhluta Úganda.
Bandaríska þingið verður að leggja blessun sína yfir ákvörðun forsetans. Gefi þingið grænt ljós segir Obama að hermennirnir verði mögulega sendir til Úganda, Suður-Súdans, Austur-Kóngó og Mið-Afríkulýðveldisins. Þetta kom fram í skilaboðum sem forsetinn sendi þinginu.