Eistar efins um gildi evrunnar

Starfsmaður matvöruverslunar breytir verðmerkingum úr eistneskum krónum yfir í evrur, …
Starfsmaður matvöruverslunar breytir verðmerkingum úr eistneskum krónum yfir í evrur, við gjaldmiðlaskiptin í janúar síðastliðnum. Reuters

31% Eista telja að upptaka evrunnar sem gjaldmiðils hafi haft fleiri slæmar en góðar afleiðingar fyrir landið. Þetta eru niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar og þar kemur einnig fram að 55% Eista segjast nú myndu kjósa gegn því að sameinast evrusvæðinu ef kosið væri um það.

Eistland er 17. og nýjasta aðildarríki myntbandalagsins, en þeir tóku gjaldmiðilinn upp hinn 1. janúar síðastliðinn. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar sem birtar voru í dag telja aðeins 17% eistnesku þjóðarinnar að upptaka evrunnar hafi að öllu leyti verið hagkvæm. 37% segjast enn styðja aðild að myntbandalaginu.

Í könnuninni var einnig spurt um afstöðu fólks til björgunarsjóðs evruríkjanna, EFSF, en eistneska þingið samþykkti ríkisábyrgð Eistlands á framlagi í sjóðinn hinn 29. september. Skv. könnuninni styðja hinsvegar aðeins 28% þátttöku Eistlands í sjóðnum, 58% eru andsnúin og 14% hlutlaus.

Eistneski stjórnamálamaðurinn og ESB-andstæðingurinn Anti Poolamets segir niðurstöðurnar sýna það sem vitað var fyrir. „Fólkið hér er mótfallið því að fátækasta evruríkið, Eistland, þurfi að taka þátt í EFSF og láta fé af hendi til miklu ríkari landa vegna þeirra eigin mistaka.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert