Myrti lögreglukonu með sverði

Samurai-sverð. Myndin er úr myndasafni.
Samurai-sverð. Myndin er úr myndasafni. mbl.is

Maður vopnaður japönsku samurai-sverði myrti lögreglukonu og særði tvo aðra þegar hann réðst inn í skrifstofu héraðsstjóra í borginni Bourges í Frakklandi í dag.

Árásarmaðurinn, sem er 33 ára, var skotinn í fótinn og særðist í árásinni. Vitni sögðu að manninum hefði áður verið synjað um skotvopnaleyfi á skrifstofunni. Hann sneri aftur og var þá vopnaður sverðinu en blað þess er 80 sentimetra langt. Maðurinn réðst á lögreglu sem reyndi að hefta för hans.

Lögreglukonan, sem var þrítug að aldri, særðist alvarlega í árásinni og lést skömmu síðan af sárum sínum. Annar lögreglumaður fékk sár á öxl og skrifstofumaður særðist einnig.

Þriðji lögreglumaðurinn skaut árásarmanninn í fótinn og særði hann. Eftir það var hann yfirbugaður og færður í fangelsi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert