Palestínumenn á Gaza og Ramallah búa sig nú undir að taka á móti mörg hundruð manns sem hafa setið í ísraelskum fangelsum. En samkomulag hefur náðst á milli Ísraela og Hamas-samtakanna um fangaskipti.
Hamas hefur samþykkt að sleppa hermanninum Gilad Shalit, sem var tekinn höndum árið 2006, gegn því að Ísraelar sleppi hátt í 1.000 palestínskum föngum.
Mikil spenna er á meðal íbúa Gaza og Ramallah sem hafa beðið lengi eftir því að hitta aftur vini og ættingja sem hafa setið á bak við lás og slá. Víða er verið að undirbúa mikil hátíðarhöld.
Móðir eins manns, sem Ísraelar hafa haft í haldi, getur ekki leynt gleði sinni. Í samtali við Reuters segir hún frá því að heimili þeirra hafi skemmst í stríðinu milli Ísraels og Hamas. Nú vinnur hún að því að gera það upp áður en sonurinn snýr aftur heim.
Í Ramallah á Vesturbakkanum má víða sjá veggspjöld af föngum sem verður slepptl.
Stjórnvöld í Ísrael birtu í dag lista yfir þá fanga sem verður sleppt, en föngunum verður sleppt í tveimur lotum.
Undanfarin tvö ár hefur fjölskylda Shalits hafst við í tjaldi í Jerúsalem á meðan hún hefur unnið að því að fá hermanninn lausan. Í Mitzpe Hila í Ísrael, sem er heimabær Shalits, er einnig verið að undirbúa mikil hátíðarhöld, en bæjarbúar bíða spenntir eftir að fá að hitta Shalit á nýjan leik.