Hópur þingmanna í Wales beitir sér nú fyrir því að foreldrum þar í landi verði gert óheimilt að slá börn sín. Þingmennirnir, sem koma úr öllum flokkum, hafa lagt fram tillögu um að fellt verði úr lögum ákvæði sem heimilar slíkar hegningar.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem reynt er að útrýma líkamlegum refsingum í Wales, en síðast þegar málið var tekið fyrir á þingi rann það út í sandinn vegna deilna um hvort þingið hefði völd til að samþykkja slík lög.
Þingmennirnir segja að heimildin sem nú er í lögum gefi foreldrum möguleika á að halda uppi vörnum fyrir ofbeldisbrot gegn börnum sínum. Þingmennirnir sem mæla fyrir banninu vísa í að banni við líkamlegu ofbeldi gegn börnum hafi verið komið á í öðrum löndum með góðum árangri. Wales sé aftarlega á merinni í réttindum barna hvað þetta varði.
Í stefnuyfirlýsingu velska Verkamannaflokksins í síðustu þingkosningum sagði m.a. að flokkurinn myndi „beita sér fyrir því að gera líkamlegar refsingar gegn börnum og unglingum óásættanlegar með því að vekja athygli á öðrum og uppbyggilegri aðferðum".