3 ára bjargað úr brunni

Björgunarsveitarmönnum í austurhluta Kína tókst að bjarga þriggja ára dreng eftir að hann féll ofan í djúpan brunn við heimili sitt.

Drengurinn var að leika við vini sína þegar hann datt ofan í brunninn nálægt borginni Heze í Shandonghéraði. Það vildi drengnum til lífs að ekkert vatn var í brunninum.

Kínverska ríkissjónvarpið CCTV segir, að fyrst hafi verið reynt að ná drengnum upp úr brunninum með því að láta kaðal síga niður til hans en án árangurs. Honum tókst þó að halda sér í reipið.

Þegar björgunarsveitarmenn komu á staðinn byrjuðu þeir á að dæla súrefni niður í brunninn. Ekki var hægt að síga niður í brunninn vegna þess að hann var of þröngur. Loks tókst að láta snöru síga niður til drengsins sem hann festi við handlegginn. Síðan var stöng með króki á endanum látin síga niður í brunninn. Króknum var krækt í föt drengsins og hann dreginn upp.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert