Laus úr fangelsi hjá Hamas

Ísraelski hermaðurinn Gilad Shalit ræddi við egypska sjónvarpið um lífsreynslu sína. Hann var látinn laus í dag eftir meira en fimm ára vist í fangelsi hjá Hamas-samtökunum.

Palestínskir stríðsmenn handtóku Shalit árið 2006. Þeir fóru um jarðgöng frá Gaza-svæðinu og sátu fyrir áhöfn ísraelsks skriðdreka. Shalit var veiklulegur og fölur þegar hann talaði við egypska sjónvarpið með aðstoð túlks. Hann kvaðst þó vera við góða heilsu.

„Ég fékk fréttirnar fyrir viku og mér fannst þá að það væri síðasta tækifærið til þess að láta mig lausan. Ég get ekki lýst tilfinningum mínum þá en ég fann að ég átti erfiðar stundir fyrir höndum,“ sagði Shalit.

Hann þakkaði þeim sem unnu að lausn hans úr fangelsi og sagði að hann vonaði að þeir 5.000 Palestínumenn sem enn eru í ísraelskum fangelsum verði látnir lausir. 

„Ég yrði mjög ánægður ef þeir væru allir látnir lausir svo þeir geti farið aftur til fjölskyldna sinna og lands síns. Ég yrði mjög glaður ef þetta gæti gerst,“ sagði Shalit.

Meira en eitt þúsund Palestínumenn voru látnir lausir í skiptum fyrir Shalit samkvæmt samningi milli ríkisstjórnar Ísrael og Hamas. Egyptar höfðu milligöngu um samningsgerðina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert