Skipstjóri og siglingafræðingur skipsins sem strandaði við Nýja-Sjáland mættu fyrir rétt í dag, en þeir eru ákærðir fyrir að hafa stýrt skipinu með þeim hætti að það hafi skapað ónauðsynlega hættu.
Mennirnir eru frá Filippseyjum og eru 44 og 37 ára gamlir. Skipið, sem heitir Rena, siglir undir fána Líberíu. Verði mennirnir fundir sekir um lögbrot geta þeir átt yfir höfði sér allt að eins árs fangelsi. Strandinu hefur verið lýst sem mesta umhverfisslysi í sögu Nýja-Sjálands.
Talið er að yfir 300 tonn af olíu hafi lekið úr skipinu í sjóinn. Búið er að dæla um 90 tonnum úr skipinu, en enn eru í því yfir 1000 tonn. Óttast er að olía fari öll í sjóinn, en björgun olíunnar hefur gengið illa vegna slæms veðurs á strandstað.