Ríkisstjórn Úkraínu íhugar nú að ganga í tollabandalag undir stjórn Rússlands, eftir að Evrópusambandið snupraði landið fyrir að varpa stjórnarandstöðuleiðtoganum Júlíu Tímósjenkó í fangelsi.
Þetta var tilkynnt aðeins degi eftir að Vladimír Pútín greindi frá stofnun nýs fríverslunarsvæðis fyrrum Sovétríkja. Pútín hefur áður tjáð þá framtíðarsýn sína að fyrrum Sovétríkin myndi svo kallað Evrasíusamband og virðist sá draumur nú nær því en fyrr að verða að veruleika.
Pútín og forsætisráðherra Úkraínu funduðu í Sankti Pétursborg í dag. Tengslin milli ríkjanna virðast styrkjast samhliða því sem kergja vex milli Úkraínu og ESB. Fyrirhugaður fundur fulltrúa ESB og Viktor Janúkóvits forseta Úkraínú, sem átti að fara fram í gær, var t.a.m. sleginn af.
Nokkrum klukkutímum síðar tilkynntu úkraínsk yfirvöld að þau hyggðust ganga í fríverslunarsamband 11 fyrrum Sovétríkja og í dag bættist áform um að ganga í tollabandalagið við. Fyrir eru í tollabandalaginu bæði Kazakstan og Hvíta-Rússland, auk Rússlands.
Pútín hefur lýst því yfir að ákvörðun Úkraínu sé „mikilvægt skref". Hugmyndin um „Evrasíusamband" fyrrum Sovétríkja var ein fyrsta stefna Pútíns í utanríkismálum sem hann lagði fram eftir að hann tilkynnti að hann stefni að nýju á forsetaembættið í kosningum í mars.