Hneigði sig ekki fyrir drottningu

Julia Gillard (f.m.) ræðir við Elísbetu drottningu við komuna til …
Julia Gillard (f.m.) ræðir við Elísbetu drottningu við komuna til Ástralíu í gær. Reuters

Julia Gillard, forsætisráðherra Ástralíu, hefur vakið reiði og hneykslan þarlendra konungssinna vegna þess að hún hneigði sig ekki þegar hún heilsaði Elísabetu Bretadrottningu þegar hún kom til Canberra í opinbera heimsókn í gær.

Þess í stað tók Gillard í hönd drottningar og beygði sig þegar hún tók á móti henni á herflugvelli við borgina. Þykir sérfræðingum í mannasiðum og áströlskum konungssinnum að forsætisráðherrann hafi þannig sýnt drottningunni ógurlegan dónaskap.

Ríkisstjórn Gillards, sem tilheyrir Verkamannaflokknum, styður hugmyndir um þjóðaratkvæðagreiðsla um að skera á tengslin við bresku krúnuna. Breska blaðið The Telegraph segir frá þessu.

Hefur Gillard reynt að verja sig og segir að henni hafi verið ráðlagt að velja það sem henni þætti náttúrulegast.

„Þetta var það sem mér fannst eðlilegast. Drottningin rétti út hönd sína og ég tók í hana og beygði mig,“ segir hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert