Líbískur ráðherra segir að Saif al-Islam, sonur Múammars Gaddafis, hafi særst og liggi á sjúkrahúsi í Líbíu. Alþjóðalögreglan Interpol hefur gefið út handtökuskipun á hendur honum. Annar sonur Gaddaifs, Mo'tassim, er sagður hafa fallið í Sirte í dag. Sá var öryggisráðgjafi föður síns.
Múammar Gaddafi, fyrrum einræðisherra landsins, lét lífið í dag eftir að uppreisnarmenn náðu Sirte, fæðingarborg hans, á sitt vald eftir margra daga umsátur. Varað er við myndum á myndskeiðum sem fylgja með þessari frétt.
Svo virðist sem Gaddafi, sem var 69 ára, hafi búið um sig í húsi í borginni ásamt vopnuðum stuðningsmönnum sínum. Í dag gerðu franskar orrustuflugvélar loftárás á lest 80 bíla, sem voru á leið út úr borginni. Bílarnir voru ekki eyðilagðir en ferð þeirra stöðvuð.
Talsmaður uppreisnarmanna segir, að þeir hafi fundið Gaddafi særðan á hálsi í einum bílnum og flutt hann í sjúkrabíl. Gaddafi hafi síðan blætt út um hálfri stundu síðar.
Á sjónvarpsmyndum, sem Al Jazeera, sjónvarpsstöðin sýndi í dag, sést Gaddafi í blóðugri skyrtu og blóðugur í andliti. Hann stendur uppréttur en fólk stjakar við honum og hrópar: Guð er mikill.
Gadhafi virðist berjast gegn fólkinu en vopnaðir menn ýta honum á vélarhlíf pallbíls. „Við viljum ná honum á lífi," heyrist hrópað en síðan sést Gaddafi dreginn burtu.
Síðan sáust myndir þar sem menn velta lífvana líkama Gaddafis eftir gangstéttinni.
Reutersfréttastofan segir, að lík Gaddafis hafi verið flutt með sjúkrabíl til mosku í borginni Misrata. Háttsettur herforingi uppreisnarmanna sagði að verið væri að gera DNA rannsóknir til að staðfesta að um sé að ræða lík Gaddafis. Hann verður væntanlega jarðsettur í Misrata á morgun.