Þjóðarleiðtogar víða um heim hafa í dag fagnað falli Múammars Gaddafis, fyrrverandi einræðisherra Líbíu. Mikil fagnaðarlæti brutust út víða í landinu meðal andstæðinga Gaddafis, m.a. í höfuðborginni Trípólí, Benghazi og Misrata.
Mahmoud Jibrli, leiðtogi bráðabirgðastjórnar Líbíu, segir að fall Gaddafis sé söguleg stund í Líbíu. Hann segir að nú sé komið að því að byggja upp nýja Líbíu.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, segir að möguleikar Líbíumanna til að leggja grunninn að frjálsri Líbíu þar sem lýðræðið sé í hávegum haft hafi nú aukist verulega.
„Ég er stoltur af þátt Breta sem aðstoðuðu þá við að koma þessari breytingu á, og ég votta þeim Líbíumönnum virðingu sem sýndu mikið hugrekki í því að frelsa landið,“ sagði Cameron.
Fyrr í dag sagði Dimitrí Medvedev, forseti Rússlands, á sameiginlegum blaðamannafundi með forsætisráðherra Hollands, að hann vonaðist til að endalok Gaddafis myndu leiða til þess að lýðræðislegt stjórnarfar yrði tekið upp í landinu.
Barack Obama Bandaríkjaforseti segir að dauði Gaddafis sendi skýr skilaboð til annarra einræðisherra í Miðausturlöndum. Nú sé löngum og sársaukafullum kafla í sögu landsins lokið. Örlög Líbíu séu nú í höndum landsmanna, en að Bandaríkin muni styðja landsmenn.