Mahmoud Jibril, starfandi forsætisráðherra Líbíu, segir að Muammar Gaddafi hafi verið drepinn í skotbardaga eftir að hann var handtekinn í fæðingarborg sinni Sirte. Myndband sýnir að algjör ringulreið ríkti við handtökuna.
Jibril segir að hermenn bráðabirgðastjórnarinnar og stuðningsmenn Gaddafi hafi skipst á skotum eftir að hann hafði verið handtekinn. Hann staðfesti að Gaddafi hefði verið særður en á lífi þegar hann var handtekinn. Hann hafi hins vegar látist áður en hann var fluttur á spítala.
Jibril sagði að eftir Gaddafi var ekið á brott hafi komið til skotbardaga og þá hafi hann verið skotinn í höfuðið. Hann sagðist ekki geta svarað því hvort það hafi verið hermenn bráðabirgðastjórnarinnar eða stuðningsmenn Gaddafi sem skutu hann.
Í myndbandinu sem fylgir fréttinni sést Gaddafi og er greinilegt að hann er særður enda blóðugur í andliti.