Múammar Gaddafi, fyrrum einræðisherra Líbíu, er allur og nú eru harðar deilur í landinu um hvar og hvernig útför hans eigi að fara fram.
Tveir dagar eru liðnir frá því Gaddafi var skotinn til bana í Sirte. Fjölskylda hans og ættbálkur hefur óskað eftir að fá lík hans til greftrunar svo hægt sé að grafa hann samkvæmt íslömskum siðum. Hins vegar er lík hans enn til sýnis í kæligeymslu í úthverfi borgarinnar Misrata.
Einnig er deilt um hvort kryfja eigi líkið eða ekki en herstjórar í Misrata sögðu, að líkið yrði ekki krufið þrátt fyrir háværar alþjóðlegar kröfur um að rannsakað verði hvernig dauða hans bar að höndum.
Mustafa Abdel Jalil, leiðtogi þjóðarráðs Líbíu, sagði að rannsókn stæði yfir á því hvað gerðist þegar Gaddafi var ráðinn bani eftir að hann var handsamaður.