Björgunarsveitarmenn í Tyrklandi leita nú eftirlifenda í rústum bygginga í borginni Van og nágrenni hennar eftir að öflugur jarðskjálfti reið yfir suðausturhluta Tyrklands í morgun klukkan 10.41 að íslenskum tíma. Óttast er að allt að eitt þúsund manns hafi týnt lífi vegna skjálftans. Tugir bygginga hrundu og slitu með sér síma og rafmagnslínur.
Forsætisráðherra Tyrklands, Tayyip Erdogan er sagður vera á leið til Van.
Borgin Van og nágrenni hennar eru ekki langt frá Van-vatni, nálægt landamærum Írans. Jarðskjálftinn sem mældist 7,2 stig átti upptök sín á fimm kílómetra dýpi.