49% Breta segjast vilja úr ESB

Fánar Evrópusambandsins blakta utan við höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar ESB í Brussel.
Fánar Evrópusambandsins blakta utan við höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar ESB í Brussel. mbl.is/GSH

Um 49% Breta segjast hlynnt úrsögn úr Evrópusambandinu á meðan 40% þeirra vilja vera áfram innan sambandsins. Þetta er niðurstaða könnunar sem gerð var á vegum breska blaðsins The Guardian en þar kemur fram að 70% kjósenda vilja fá að kjósa um aðild að ESB.

Könnun Guardian er birt á sama tíma og tekist er á í breska þinginu um tillögu þingmanns íhaldsmanna um að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu  árið 2013 um hvort Bretland eigi að vera áfram innan ESB, yfirgefa það eða krefjast nýrra aðildarviðræðna með endurskoðun skilmála.

Kosið verður um tillöguna kl. 21 í  kvöld að íslenskum tíma en David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hefur biðlað til þingmanna sinna um að greiða atkvæði gegn tillögunni. Þingmönnum Frjálslyndra demókrata og Verkamannaflokksins hefur einnig verið skipað að greiða atkvæði gegn tillögunni.  Þegar hefur 61 þingmaður íhaldsmanna lýst yfir stuðningi við tillöguna og nú er spurningin sú hvort þeir fari gegn vilja flokksins sbr. frétt BBC. Heimildir AFP herma að á milli 60 og 100 þingmenn af 305 þingmönnum íhaldsmanna hafi ákveðið að ganga gegn vilja Cameron og greiða atkvæði með tillögunni.

Cameron hefur sagst hafa skilning á tillögunni en hins vegar telur hann tímasetninguna ranga vegna evruvandans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka