Fjöldamorð í Sirte

Mannréttindavaktin, Human Rights Watch, segist hafa fundið 53 lík í hótelgarði í borginni Sirte í Líbíu og bendi allt til þess að um sé að ræða stuðningsmenn Muammars Gaddafis sem hafi verið teknir af lífi eftir að borgin féll í hendur hersveita uppreisnarmanna í síðustu viku.

Peter Bouckaert, talsmaður Mannréttindavaktarinnar, segir að sumir hafi verið með hendur bundnar fyrir aftan bak þegar þeir voru skotnir.  

Líkin fundust í gær við Mahari-hótelið í einu af úthverfum Sirte en uppreisnarmenn frá borginni Misrata voru með þann borgarhluta á valdi sínu þegar fólkið var skotið til bana.

Fréttamaður AFP sá um helgina 60 lík á lóð Al-Mahari-sjúkrahússins og sagði ljóst að margir hefðu verið teknir af lífi með skoti í höfuðið. Sumir höfðu verið bundnir á höndum og fótum.  

Stríðsmenn líbíska þjóðarráðsins sögðu AFP að sjúkrahúsið hefði verið notað sem bráðabirgðafangelsi liðsmanna Gaddafis sem hefðu tekið fjölda fólks af lífi áður en þeir yfirgáfu svæðið. 

Mannréttindavaktin segir að morðin í Sirte virðist hafa verið framin um viku áður en líkin fundust. Líklega hefðu flestir verið íbúar í borginni. Margt benti til þess að stríðsmenn frá Misrata bæru ábyrgð á morðunum.

„Ef þjóðarráðið rannsakar ekki þennan glæp mun það gefa til kynna að þeir sem börðust gegn Gaddafi geti farið sínu fram án þess að þurfa að óttast refsingu," sagði talsmaður Mannréttindavaktarinnar.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert