Líbíumenn taki upp sjaríalög

Nýrra leiðtoga í Líbíu bíður nú hið vandasama verk að mynda nýja ríkisstjórn í landinu eftir 42 ára langa ógnarstjórn Gaddafis. Sjaríalög múslíma verða lögð til grundvallar nýrri stjórnarskrá.

„Í dag hefjum við undirbúning nýrra tíma. Við munum skipuleggja og vinna hörðum höndum að framtíð Líbíu,“ sagði Abdel Hafiz Ghoga sem er varaforseti Þjóðarráðs Líbíu á samkomu í borginni Benghazi í gær,  sem tugþúsundir sóttu. Samkoman var haldin á þeim stað þar sem uppreisnin hófst fyrir um átta mánuðum síðan og þar var frelsun Líbíu formlega lýst yfir.

„Við lýsum yfir frelsi. Berið höfuð ykkar hátt. Þið eruð frjálsir Líbíumenn,“ sagði Ghoga við mannfjöldann, sem fagnaði honum ákaft.

Samkvæmt áætlunum Þjóðarráðsins verður ný ríkisstjórn mynduð innan mánaðar og kosningar til stjórnlagaráðs, sem á að semja ný lög landsins, verða haldnar á næstu átta mánuðum. Það verða fyrstu lýðræðislegu kosningarnar frá því að Gaddafi náði völdum í valdaráni árið 1969. Síðan er áformað að þing- og forsetakosningar verði haldnar innan árs eftir að því er lokið, eða ekki síðar en innan 20 mánaða frá því að uppreisninni lauk.

Mustafa Abdel Jalil, leiðtogi Þjóðarráðsins, krefst þess að sjarialögum múslíma verði komið á í Líbíu. „Við erum íslömsk þjóð og eigum að viðurkenna sjaríalög sem grunnlög. „Öll lög sem ganga í berhögg við sjaría eru ógild,“ sagði hann á samkomunni í gær.

Þar þakkaði hann NATO fyrir sitt framlag til frelsunar Líbíu og bað alla viðstadda um að úthýsa öllu hatri úr hjörtum sínum. Hann sagði að myndun nýrrar ríkisstjórnar gæti tekið allt frá einni viku til eins mánaðar.

Jalil vísaði m.a. til gildandi laga í Líbíu um giftingar og skilnaði og sagði að þau væru ógild. Samkvæmt sjaríalögum er fjölkvæni leyfilegt en það var bannað með lögum sem stjórn Gaddafis setti.   

Jalil tilkynnti einnig, að sérstakar íslamskar bankastofnanir yrðu settar á stofn í Líbíu í samræmi við sjaríalög, sem banna að teknir séu vextir af lánum. Sagði Jalil að vextir sköpuðu öfund.

Jalil sagði einnig, að íslömsk lög bönnuðu að skotið sé úr byssum upp í loftið til að fagna. „Við þökkum ekki Guði með því að skjóta. Það er bannað með sjaría vegna þess að það getur skaðað óbreytta borgara."

Abdel Jalil, sem er sanntrúaður múslimi, hóf ræðu sína á því að þakka guði og biðja. Nokkrir aðrir leiðtogar þjóðarráðsins og uppreisnarinnar, sem stóðu á sviðinu, lögðu einnig áherslu á að Líbía verði íslömsk þjóð.

Sendiherrar Frakklands og Bandaríkjanna sóttu samkomuna, þar voru einnig fulltrúar Bretlands, Egyptalands, Svíþjóðar og Túnis, auk fulltrúa frá Sameinuðu þjóðunum.

Nýr varnarmálaráherra Bretlands, Philip Hammond, segir að orðspor nýrra leiðtoga Líbíu, sé flekkað vegna dauða Gaddafis. „Þeir verða að skilja að orðstír þeirra í alþjóðasamfélaginu hefur beðið hnekki vegna þess sem gerðist,“ sagði Hammond í viðtali við bresku sjónvarpsstöðina BBC.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert