Eldsneytisgeymir sprakk í gærkvöldi í borginni Sirte, heimabæ Muammars Gaddafis, fallins einræðisherra Líbíu. Yfir 100 manns létu lífið í eldi, sem kviknaði við sprenginguna.
„Það varð gríðarleg sprenging og mikill eldur. Yfir 100 létu lífið og 50 aðrir slösuðust," sagði Leith Mohammed, herforingi þjóðarráðs Líbíu.
Sprengingin varð þegar fólk safnaðist saman við eldsneytisgeyminn til að ná sér í eldsneyti á bíla sína. Mohammed sagði í morgun, að eldurinn logaði enn.
Sumir þeirra sem létust höfðu nýlega snúið aftur til bæjarins til að kanna skemmdir á húsum sínum en fjölmargir flúðu frá Sirte á síðustu vikum vegna harðra átaka, sem geisuðu milli uppreisnarmanna og stuðningsmanna Gaddafis.