Glæpamenn þvættu árið 2009 peninga að andvirði 1,6 billjarða dala, ríflega 180 billjarða króna á heimsvísu og er talið að um einn fimmti þeirrar fjárhæðar sé vegna fíkniefnaviðskipta og aðeins hafi verið lagt hald á eða fryst eitt prósent þessarar fjárhæðar. Þetta er niðurstaða nýrrar skýrslu sem birt var á vegum skrifstofu Sameinuðu þjóðanna um eiturlyf og glæpi (UNODC).
Í skýrslunni kemur fram að fjárhæðin nemi um 2,7% af landsframleiðslu á heimsvísu sem sé í samræmi við það mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að umfang peningaþvættis nemi um 2%-5%.
Samkvæmt skýrslunni námu heildartekjur af glæpum árið 2009 2,1 billjörðum dala eða um 3,6% af alheimsframleiðslu og eru þá skattundanskot ekki talin með.
Yury Fedotov, framkvæmdastjóri UNODC, segir í tilkynningu að erfitt sé að rekja slóð fjár sem eigi upptök sín í ólöglegri starfsemi á við eiturlyfjasölu og skipulagða glæpi, í gegnum fjármálakerfi heimsins.