Þúsundir flýja loftárásir á Filippseyjum

Filippeyskir hermenn. Úr safni.
Filippeyskir hermenn. Úr safni. Reuters

Þúsundir Filippseyinga hafa flúið heimili sín í suðurhluta landsins þar sem herinn hefur gert árásir á glæpasamtök og skæruliðahreyfingar múslíma.

Talsmaður hersins segir að annan daginn í röð hafi verið gerðar loftárásir á liðsmenn íslömsku frelsishreyfingarinnar Moro. Hann segir að hermennirnir hafi mætt harðri mótspyrnu á jörðu niðri.

AFP fréttastofan hefur eftir skæruliðunum að þeir neiti alfarið þeim ásökunum að þeir skjóti skjólshúsi yfir glæpahópa og að þeir séu reiðubúnir að hefja viðræður um frið.

Breska ríkisútvarpið segir að yfir 10.000 manns hafi flúið þrjá afskekkta bæi í héraðinu Zamboanga Sibugay. En þetta er haft eftir embættismanni.

Þá hafa yfir 20 hermenn fallið í átökunum sl. daga. Fram kemur á vef BBC að Benigno Aquino, forseti Filippseyja, sé nú undir miklum þrýstingi að rifta vopnahléssamkomulagi með formlegum hætti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert